Ferill 318. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 781  —  318. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (erlend mútubrot).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hinriku Söndru Ingimundardóttur og Kjartan Ólafsson frá dómsmálaráðuneytinu.
    Með frumvarpinu er brugðist við tilmælum sem koma fram í skýrslu vinnuhóps Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) frá desember 2020 vegna fjórðu úttektar um framkvæmd Íslands á samningi um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum. Lagðar eru til breytingar á 109. gr. og 264. gr. a almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, þannig að refsihámark hækki úr 5 árum í 6 ár. Með þeirri breytingu mun einnig verða heimilt að beita upptökuákvæði í 1. mgr. 69. gr. b vegna brota gegn 109. gr. Til viðbótar eru lagðar til breytingar á 264. gr. a til að samræma ákvæðið betur við kröfur mútusamningsins. Loks er lögð til breyting á 5. mgr. 81. gr. um fyrningu refsiábyrgðar lögaðila, sem hækkar úr 5 árum í 10 ár, vegna brota gegn 109. gr. og 1. mgr. 264. gr. a í lögunum.
    Meiri hlutinn leggur til breytingu á frumvarpinu sem er tæknilegs eðlis. Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 3. gr.
     a.      Orðin „og 2.“ í c-lið falli brott.
     b.      Á eftir c-lið komi nýr stafliður, svohljóðandi: Í stað orðanna „í bága við starfsskyldur sínar“ í 2. mgr. kemur: sem tengist starfsskyldum hans.

    Bergþór Ólason og Eyjólfur Ármannsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Birgir Þórarinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 29. mars 2022.

Bryndís Haraldsdóttir,
form., frsm.
Birgir Þórarinsson. Hilda Jana Gísladóttir.
Iða Marsibil Jónsdóttir. Jódís Skúladóttir. Jóhann Friðrik Friðriksson.